Gaman

að heyra frá svona mörgum hér á síðunni 🙂 kærar þakkir fyrir það. Og Sólrún – myndir koma seinna. Ímyndaðu þér bara eitthvað rosalega flott og það er húsið mitt. Matti – Hjálp þín væri vel þegin, en andinn hjálpar einnig. Bryndís – við söknum ykkar líka og Óliver væri sko alveg til að vera sjóræningjapabbinn í fjölskyldu þeirra Freyju. Sólveig – við söknum Arnórs líka (og ykkar) og vorum einmitt að tala um hann í dag þegar við fylltum buslulaugin af vatni að hann myndi hafa það huggulegt í garðinum okkar. Mamma og Ragnheiður – góða skemmtun á skátamótinu.

Og svo að færslu dagsins. Í dag er ég 5 ára og mig langar heim. Eða kannski er ég 14 ára og langar að liggja upp í sófa alla nóttina og horfa á vidéó og fara á fætur um hádegi. Eða eitthvað. Allaveganna er ég alveg með nóg af þessum blessaða fullorðinsleik í dag og skil ekki hver fann þennan leik upp. Verkaskipting heimilisins er í grófum dráttum að ég passa ungana á meðan Kim vinnur í húsinu. Við erum bæði orðin smá þreytt á þessari verkaskiftingu. En… Kim er hörku duglegur og hefur fengið frábæra hjálp hjá Troels svo hér er það sem hefur verið gert niðri.

Altt málað. Loft og veggir. Allt hvítt til að byrja með. Búið að leggja nýtt trégólf í svefnherbergið, stigaganginn, ganginn, skrifstofuna og samverustofuna. Búið að leggja laminatgrasgólf á gólfið í barnaherberginu. Búið að mála fleiri metra af listum og setja í barnaherbergið og samverustofuna.

Svo er einnig búið að saga í sandkassa. Kaupa húsgögn. Setja saman fataskápa barnanna. Kaupa, kaupa, kaupa. Búið að laga aðeins í garðinum og slá grasið tvisvar.

Og við ungarnir höfum hjólað, farið í göngutúra, farið í dýragarðinn í Odense, farið á ströndina og svona sitt lítið af hverju.

Og planið er að setja lista í svefniherbergið á morgun og flytja niður með rúmin og koma okkur fyrir niðri. Því að þegar það er gert getum við byrjað á þeim 2 herbergjum sem eru hér uppi. Og þegar þau eru búin, er smá pása. Við bíðum algerlega með stofuna. Þangað til einhvern tíman og einhvern tíman.

Ungarnir byrja í aðlögun í lok næstu viku, nema Máni má byrja að mæta aðeins á frístundaheimilið á morgun. Og svo byrjar vinnan hjá okkur ekki löngu eftir. Það verður nú líklegast bara ágætt að komast í rútínuna.

Svo það er kannski skiljanlegt að maður verði örlítið lúin öðru hverju og langi að Mary Poppins komi og bjargi málunum. En að mestu leyti gengur bara allt mjög vel og við erum mjög ánægð með húsið. Mér finnst skrýtið að búa aftur í Danmörku og þó að ég hafi búið hér áður er þetta undarleg tilfinning. En við höfum líka haft gesti Frank og Louise komu í mat síðasta miðvikudag og í gær komu David og Stine í mat, svo það er huggulegt að fólk skuli kíkja á okkur hér.

Og svo var ég aðeins of fljót á mér að tilkynna að Röskva væri farin að sofa alla nóttina, þetta voru greinilega bara nokkrar nætur, svo núna vill hún aftur pela. Oh. En hún er farin að standa alveg óstudd og æfir sig stöðugt í að ganga. Við erum að spá í að reyna að finna upp vél sem getur gengið um með hana, þar sem við erum að verða hokin af of miklum gönguferðum 🙂

Óliver æfir sig stöðugt í dönskunni og spyr og spyr. Hann talar eins og góður innflytjandi og er algerlega ófeimin. T.d. þegar við erum á róló talar hann við alla, bæði börn og fullorðna og blandar bara íslensku inn á milli. Hann á eftir að læra þetta fljótt litli gaurinn. Og af klósettmálum er það helst í fréttum að hann kúkaði á gólfið í dag og bað um pappír til að taka það upp… ha ha mmmmmm.

Máni er farin að hlakka mikið til að fara í skólann. Hann er farin að fá vasapening einu sinni í viku 2 sinnum aldur hans, þ.e. 10 kr. sem svo hækka 9.sept. En honum finnst hann geta keypt heldur lítið fyrir 10 kr. og er ekki alveg sáttur við þetta fyrirkomulag. Við erum að reyna að ræða við hann að safna….. en þegar hann fer með okkur í rauða kross búðina freistast hann oft til að kaupa eitthvað dót, sem kostar aldrei meira en 10 kr. og þá er erfitt að safna.

jæja, þetta er víst orðin mikil langloka og klukkan orðin 22:26 hér. Við hliðina á mér situr gaur, sem læddist niður fyrir hálftíma síðan og vill núna láta mömmu lesa fyrir sig aftur, þó svo að stjörnar séu komnar á himininn. Svo við kveðjum núna úr græna sófanum.

Nei, eitt enn. Ég gleymdi víst alveg að segja ykkur frá því að við tókum okkur smá vinnupásu í dag og fórum öll saman niður á bryggju að veiða krabba. Máni spurði 4 sinnum “eru allir að fara með?”. Veit ekki hvort svona krabbaveiði er danskt fyrirbæri, en maður tekur spítu, bindur í hana band með klemmu á endanum. Setur pylsu í klemmuna og er svo tilbúin með háf þegar krabbinn bítur á. Við veiddum 10 krabba í fötu og slepptum þeim svo.

Bless, Erla og (Óliver).

- 2 kommentarer til Gaman

2 Replies to “Gaman”

 1. Hæ dúllurnar. Gaman hvað allt gengur vel og lítur út fyrir að þið fáið nóg af gestum.
  Var að koma heim af skátamótinu, pantaði pizzu og fór á videoleiguna, leigði vitlausa mynd og Begga og Sigurmon eru að velja nýja. Ég er orðin útitekin eftir næstum mánaðarútilegu. Verð sennilega að tjalda í garðinum, þoli ekki við inni. Það var mjög gaman á skátamótinu og ég er glöð yfir að hafa drifið mig. Hitti Sigrúnu Erla og hún bað auðvitað að heilsa þér. Við rifjuðum enn einu sinni upp söguna með skátastafina og kústsköftin.
  Sakna ykkar alltaf, mamma

 2. Hæ gaman að heyra frá ykkur og góður Óliver
  skil vel að þig langi stundum að fá smá pásu þetta er orðin ansi stór pakki hjá ykkur, en nú eru stuningsamma og afi á leiðinni og taka í liltla putta
  veður nóg að gera hjá ykkur
  við erum að fara á Seljanes stórfjölskyldan
  gæti verið að Bjarni og Olga komi líka
  kveðja ragnheiður

Skriv et svar

Din e-mailadresse vil ikke blive publiceret. Krævede felter er markeret med *